Fyrsta mark leiksins skoraði Gaetan Laborde þegar hann setti fyrirgjöf Kamaldeen Sulemana viðstöðulaust í netið á seinustu mínútu fyrri hálfleiks.
Staðan var því 1-0 þegar gegnið var til búningsherbergja, en heimamenn byrjuðu seinni hálfleikinn eins og þeir enduðu þann fyrri. Flavien Tait kom boltanum í netið í fyrstu sókn seinni hálfleiksins eftir fyrirgjöf frá hinum markaskorara dagsins.
Gestirnir frá París voru sterkari aðilinn það sem eftir var af leiknum, og þar virtist ætla að skila sér. Angel Di Maria og Kylian Mbappé áttu gott þríhyrningsspil þegar rúmar tuttugu mínútur voru til leiksloka, sem endaði með því að sá síðarnefndi kom boltanum yfir marklínuna.
Skoðun myndbandsdómara leiddi þó í ljós að Mbappé var rangstæður og markið því dæmt af.
Að lokum voru það því heimamenn sem að unnu virkilega sterkan 2-0 sigur og eru nú með 12 stig í sjöunda sæti eftir níu umferðir. Eins og áður segir var þetta fyrsta tap PSG á tímabilinu, en liðið trónir þó á toppi deildarinnar með 24 stig.