Um tólf milljónum gagna var lekið til alþjóðlegra samtaka rannsóknarblaðamanna, ICIJ. Ríflega 600 blaðamenn um allan heim hafa unnið úr gagnalekanum, sem hefur fengið heitið Pandora Papers, eða Pandóruskjölin. Þar á meðal blaðamenn Stundarinnar og Reykjavík Media.
Í gögnunum er að finna upplýsingar um fjármál 35 núverandi eða fyrrverandi þjóðarleiðtoga og rúmlega 330 stjórnmálamanna frá 91 landi. Þá eru einnig upplýsingar um fólk á flótta undan réttvísinni, fjárglæpamenn og morðingja í Pandóruskjölunum.
Lagði inn á bankareikning í Andorra er hann spilaði Katar
Guardiola mun hafa sett rúmlega hálfa milljón evra inn á bankareikning í Andorra er hann spilaði í Katar undir lok ferils síns. Reikningurinn var enn opinn er hann þjálfaði Barcelona frá árunum 2009 til 2012.
Samkvæmt El Pais og La Sexta á Spáni mun Guardiola hafa opnað reikninginn til að geyma launin sem hann fékk frá Al Ahli á árunum 2003 til 2005. Fékk hann rúmlega 1,7 milljón punda í laun á þeim tíma.
Pep Guardiola failed to declare to Spanish authorities that he had opened an offshore bank account while playing in Qatar, according to the Pandora Papers leaks @Tom_Morgs https://t.co/AzqJWFSriJ
— Telegraph Football (@TeleFootball) October 4, 2021
Guardiola mun hins vegar ekki hafa tilkynnt yfirvöldum á Spáni um tilvist reikningsins fyrr en árið 2012 þegar ekki þurfti að borga skatt af þeim eftir skattaívilnanir þar í landi.
Samkvæmt Lluis Orobitg, lagalegum ráðgjafa Guardiola, var reikningurinn stofnaður þar sem það var ómögulegt að fá dvalarleyfi í Katar þar sem hann hefði ekki þurft að borga skatt.
Það er hins vegar ekki talið að Pep hafi gert neitt ólöglegt þó að reikningurinn hafi verið stofnaður með hjálp skúffufyrirtækisins Repox Investments.
The Telegraph hafði samband við Manchester City vegna málsins en félagið vildi ekki tjá sig um fjármál Guardiola.