Emil hafði verið án félags frá því í sumar eftir að hafa síðast leikið með Padova í C-deildinni, þar sem hann kom við sögu í 34 leikjum á síðustu leiktíð. Útlit var fyrir að hann færi svo til Sona Calcio í ítölsku D-deildinni í sumar en ekkert varð af því.
Í tilkynningu frá Virtus Verona er þess getið að Emil verði fyrsti leikmaðurinn til að klæðast búningi liðsins sem leikið hafi í lokakeppni EM og HM.
Emil hefur lengst af síns ferils spilað á Ítalíu og lék með stærra liðinu af þeim tveimur sem nú eru starfandi í Verónaborg, Hellas Verona, á árunum 2010-2016. Á Ítalíu hefur hann einnig leikið með Padova, Udinese, Frosinone og Reggina.
Emil hóf ferilinn hjá FH en fór tvítugur til Tottenham Hotspur á Englandi. Hann lék svo í Svíþjóð og Noregi áður en hann fór fyrst til Ítalíu sumarið 2007 til að spila fyrir Reggina.
Emil á að baki 73 A-landsleiki en spilaði síðast með landsliðinu fyrir rúmu ári síðan, í tveimur leikjum í Þjóðadeildinni undir stjórn Eriks Hamrén.