Í tilkynningu segir að Hlíf muni halda utan um gæðakerfi fyrirtækisins í takt við auknar kröfur á markaði um gæði, öryggi og rekjanleika lækningatækja. Auk þess mun hún sjá um fræðslumál fyrirtækisins.
„Síðastliðin 7 ár starfaði Hlíf hjá Securitas þar sem hún gegndi ýmsum stjórnendastöðum, síðast sem gæða-og öryggisstjóri. Fyrir það starfaði Hlíf sem kennari og verkefnastjóri í Keili, miðstöð vísinda, fræða og atvinnulífs og þar áður sem fjármálastjóri hjá hugbúnaðarfyrirtækinu Betware.
Hlíf er með Bs gráðu í viðskiptafræði og Med gráðu í lýðheilsu og kennslufræðum frá Háskóla Íslands,“ segir í tilkynningunni.
Um fyrirtækið segir að Fastus sé þjónustufyrirtæki sem sjái fyrirtækjum og stofnunum á heilbrigðissviði, og í rekstri tengdum matvælum og iðnaði, fyrir tækjum, búnaði og rekstrarvörum. Hjá félaginu starfi um sextíu manns.