Sport

Krísa hjá Kansas eða ekki krísa hjá Kansas: Henry Birgir með sterka skoðun

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Patrick Mahomes var svekkelsið uppmálað í síðasta leik Kansas City Chiefs þar sem liðið tapaði öðrum heimaleiknum sínum í röð.
Patrick Mahomes var svekkelsið uppmálað í síðasta leik Kansas City Chiefs þar sem liðið tapaði öðrum heimaleiknum sínum í röð. AP/Ed Zurga

Patrick Mahomes og félagar í Kansas City Chiefs líta ekki lengur út eins og eitt af bestu liðum NFL-deildarinnar og þeir steinlágu á móti Buffalo Bills á heimavelli um helgina. Lokasóknin ræddi stöðuna á kólnum eins heitasta liðs ameríska fótboltans síðustu ár.

„Mig rámar í þátt hérna um daginn þar sem ónefndur aðili hérna inni hafi talað um að það væri líklega krísa hjá Kansas. Annar ónefndur maður svaraði þá: Það er enginn krísa hjá Kansas. Hvað segir þú núna vinur,“ sagði Henry Birgir Gunnarsson og beindi spurningu sinni til Eiríks Stefáns Ásgeirssonar.

„Nei. Þeir voru að tapa fyrir Buffalo sem er með frábært lið sem gæti verið besta lið deildarinnar,“ sagði Eiríkur Stefán.

„Þeir tapa öllu á heimavelli og þeir tapa öllum jöfnum leikjum. Það var bara valtað yfir þá þarna,“ sagði Henry Birgir.

Klippa: Lokasóknin: Staðan á Kansas City Chiefs liðinu

„Alvöru hausar vita að tímabilið byrjar ekki fyrr en eftir Thanksgiving. Verum vara rólegir á þessu,“ sagði Eiríkur Stefán.

Henry Birgir var samt alveg klár í yfirlýsingar strax.

„Hér er yfirlýsing. Kansas. Þetta er búið. Kansas verður ekkert í neinni baráttu á þessari leiktíð og ástæðan er: Þeir verða með frábæra sókn en það er ekki hægt að fara alla leið í Super Bowl með svona hörmulegan varnarleik,“ sagði Henry.

Andri Ólafsson fór með þeim Henry og Eiríki yfir leik Kansas City Chiefs í tapinu á móti Buffalo. Þar var líka rætt um hið geysisterka lið Buffalo Bills. Þeir tóku meðal annars fyrir þegar leikstjórnandinn Josh Allen fór í grindahlaup yfir einn varnarmann Kansas City.

Umfjöllunina má sjá hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×