Síminn tilkynnti í dag að fyrirtækið hefði skrifað undir samkomulag við alþjóðlega franska sjóðastýringarfyrirtækið Ardian France SA sem rekur Ardian Infrastructure Fund V, um einkaviðræður og helstu skilmála í tengslum við mögulega sölu Símans á dótturfélaginu Mílu ehf.
Míla er heildsölufyrirtæki á fjarskiptamarkaði og felst kjarnastarfsemi Mílu í að byggja upp og reka innviði fjarskipta á landsvísu. Kerfi Mílu eru grunnur að fjölþættri fjarskiptaþjónustu um allt land.
Eftir tíðindin hækkuðu hlutabréf Símans um 6,90 prósent í 356 milljóna króna viðskiptum í Kauphöllinni í dag.
Í frétt RÚV um að salan hafi verið rædd í þjóðaröryggisráði er haft eftir Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra að eftir skoðun á mikilvægi þeirra innviða sem Míla sér fyrir þjóðar- og almannaöryggi hafi verið ákveðið að samgönguráðherra yrði falið að ræða við Símann um hvernig unnt væri að tryggja þjóðar- og almannaöryggi óháð eignarhaldi á innviðunum.
Tekið hafi verið upp samtal við stjórn Mílu til að tryggja það og sagði Katrín að það samtal gengi ágætlega.