Baldwin hæfði tvo þegar hann hleypti af byssunni á tökustað kvikmyndarinnar Rust í Nýju Mexíkó í gær; kvikmyndastjórann Halynu Hutchins og leikstjórann Joel Souza. Hutchins lést af áverkum sínum en Souza var fluttur á sjúkrahús - og útskrifaður þaðan í dag. Lögregla rannsakar hvort raunverulegar kúlur voru í byssunni eða hvort brotajárn hafi skotist úr vopninu. Baldwin gaf sig fram við lögreglu í kjölfar atviksins og var síðan látinn laus.
Hann tjáði sig um atvikið á Twitter-reikningi sínum síðdegis og sagðist harmi sleginn vegna slyssins. Þá legði hann allt sitt af mörkum til að aðstoða lögreglu við rannsókn málsins.
Heimir Sverrisson leikmyndahönnuður segir reglur um skotvopn á íslenskum tökustöðum strangar og raunveruleg vopn séu nær aldrei notuð. Hann hafi til að mynda aðeins einu sinni tekið þátt í slíku verkefni.
„Það var gert undir mjög ströngu eftirliti og þar var sérþjálfaður maður í meðhöndlun vopna var með okkur og sá um að allt gengi upp. Ef verið er að handleika byssur í áflogum eða handleika önnur vopn þá eru teknar afsteypur af þeim, þær eru steyptar í mýkri efni, þannig að þær geta ekki skaðað leikara.“
Svona alvarleg atvik séu sem betur fer ákaflega sjaldgæf á heimsvísu.
„Það verður örugglega margt endurskoðað í þessu þarna úti í Bandaríkjunum og víðar. Við tökum þetta öll til okkar sem vinnum í þessu fagi og hugsum aðeins hvað má betur fara,“ segir Heimir.