Fótbolti

Sjálfsmark frá Zlatan og tvö rauð spjöld í sex marka leik

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Allt í öllu í kvöld.
Allt í öllu í kvöld. vísir/Getty

Síðasti leikur dagsins í ítölsku úrvalsdeildinni var viðureign Bologna og AC Milan og er óhætt að segja að áhorfendur hafi fengið allt fyrir peninginn.

Rafael Leao kom gestunum frá Milanó yfir snemma leiks eftir stoðsendingu Zlatan Ibrahimovic. Á 20.mínútu fékk Adama Soumaoro, varnarmaður Bologna, að líta rauða spjaldið.

Davide Calabria kom AC Milan í 0-2 fyrir leikhlé og því fóru gestirnir manni fleiri og með tveggja marka forystu í leikhléið.

Heimamönnum barst hjálp úr óvæntri átt snemma í síðari hálfleik þegar Zlatan Ibrahimovic setti boltann í eigið net. Sjálfsmark frá Svíanum markheppna og Bologna komið inn í leikinn.

Einum færri tókst Bologna að jafna metin því Musa Barrow skoraði á 52.mínútu og staðan orðin 2-2. Eftir klukkutíma leik fékk Roberto Soriano, miðjumaður Bologna, að líta rauða spjaldið og heimamenn því orðnir tveimur mönnum færri.

Það tók AC Milan drjúgan tíma að nýta sér liðsmuninn en það hafðist þó því Ismael Bennacer kom AC Milan í 2-3 á 84.mínútu og það var svo Zlatan sjálfur sem átti lokaorðið, nú með því að setja boltann í mark andstæðinganna og tryggði þar með AC Milan 2-4 sigur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×