Eitan Biran hafði verið í umsjá föðursystur sinnar á Ítalíu eftir að foreldrar hans, yngri bróðir og ellefu til viðbótar fórust í kláfferjuslysi í norðurhluta Ítalíu í vor. Fréttastofa Reuters greinir frá.
Móðurafi drengsins heimsótti hann í síðasta mánuði og án vitneskju frænkunnar tók afinn hann með sér til Sviss þar sem þeirra beið einkaflugvél sem flutti þá til Ísrael. Að sögn frænkunnar telst málið til mannráns og vísaði þar til Haag-samningsins um vernd barna og samvinnu varðandi ætleiðingu milli landa.
Þá óskaði hún eftir því við fjölskyldudómstól í Tel Aviv að drengurinn yrði sendur aftur til hennar á Ítalíu.
Dómstóllinn úrskurðaði í morgun að Ítalía væri heimili drengsins og ætti hann því að snúa aftur þangað, þar sem hann hafi búið á Ítalíu með foreldrum sínum síðan hann var mánaðargamall.
Dómurinn tók ekki til greina röksemdarfærslu afans um að Ísrael væri réttmætt heimili drengsins, en að mati afans var það svo þar sem foreldrarnir hafi ætlað að flytja aftur til Ísrael.
Í úrskurðinum segir að ítalskir dómstólar hafi veitt frænkunni forræði yfir drengnum og hafi afinn því brotið á bága við Haag-samninginn.
Móðurfjölskylda drengsins hefur sjö daga til að áfrýja dómnum, sem fjölskyldan hyggst gera. Að mati fjölskyldunnar byggði dómurinn eingöngu á því hvernig Eitan var fluttur frá Ítalíu en ekki á því hvað væri best fyrir hann og framtíð hans.