Þetta kemur fram í Hagsjá Landsbankans þar sem fram kemur að samanlagt hafi kortavelta aukist um fimm prósent á milli ára miðað við fast geng og fast verðlag.
Alls nam velta tengd verslun og þjónustu innanlands 67,7 milljörðum króna. og dróst saman um rúm fjögur prósent milli ára á föstu verðlagi. Kortavelta Íslendinga erlendis nam 15,4 milljörðum króna og jókst um 85 prósent á milli ára miðað við fast gengi.
„Á síðustu mánuðum hefur vöxturinn í kortaveltu að mestu leyti verið tilkominn vegna aukningar í kortaveltu erlendis þar sem Íslendingar eru nú farnir að ferðast til útlanda í auknum mæli. Þetta er þó fyrsti mánuðurinn þar sem vöxturinn er alfarið tilkominn vegna aukningar erlendis frá“, segir í Hagsjánni.
Þar kemur einnig fram að innanlands hafi samdráttur ur í neyslu Íslendinga mælst í fyrsta sinn síðan í apríl 2020. Þrátt fyrir það sé neyslan örlítið meiri en hún var á sama tíma árið 2019 og Íslendingar því enn duglegir að neyta vara og þjónustu innanlands þó áherslan færist út fyrir landsteinana.
Neysla Íslendinga erlendis mælist þó enn um 12 prósent lægri en hún var á sama tíma árið 2019.