Réttarhöldin hófust í morgun í Royal Court of Justice og munu standa yfir í tvo daga þar sem Bandaríkjastjórn reynir að fá ákvörðun undirréttar frá því í janúar hnekkt. Assange er ákærður í Bandaríkjunum fyrir þjófnað og birtingu á sendiráðs- og hernaðarskjölum árið 2010.
Kristinn Hrafnsson, ritstjóri WikiLeaks, er nú í dómsalnum.
„Núna eru lögmenn Bandaríkjastjórnar að reyna að halda því fram að þeir geti lagt fram fullkomnar tryggingar á því það verði farið óskaplega vel með Julian í fangelsi í Bandaríkjunum, hann verði ekki í einangrun og geti látið sér líða vel,“ segir Kristinn.
„Á morgun munu lögmenn Julians hafa tækifæri til þess að leggja fram gögn því til stuðnings að það sé lítið á því að treysta.“
Kristinn segir heilsu Assange vera í húfi og á þeirri forsendu hafi framsalsbeiðninni verið hafnað í janúar en hætta var á að Assange myndi svipta sig lífi í bandarísku fangelsi. Assange var handtekinn árið 2019 eftir að hafa eytt sjö árum í sendiráði Ekvadors í Lundúnum.
„Heilsu hans hefur hrakað mjög mikið og hefur ekki skánað við það að sitja í fangelsi, mesta öryggisfangelsi Bretlands, í meira en tvö ár í varðhaldi sem að eitt og sér og í sjálfu sér er náttúrulega fullkomið mannréttindabrot,“ segir Kristinn.
Aðspurður um hvort hann telji að áfrýjunardómstóllinn muni hafna nýjustu beiðni Bandaríkjastjórnar segist Kristinn vona það.
Hann vísar til nýlegra frétta frá Yahoo News, sem byggðar voru á yfir 30 heimildarmönnum í Bandaríkjunum, um áætlanir Leyniþjónustu Bandaríkjanna að ræna Assange í sendiráði Ekvador í Lundúnum. Þá hafi einnig verið dregnar upp áætlanir um að taka Assange af lífi.
„Það ætti nú að vera tiltölulega augljóst að siðmenntað ríki getur ekki framselt mann til ríkis sem að hefur dregið upp áætlanir um að ræna viðkomandi eða taka hann af lífi.“