Handbolti

Íslendingalið Gummersbach tapaði sínum fyrsta leik

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Hákon Daði og félagar hans í Gummersbach töpuðu sínum fyrsta leik í kvöld.
Hákon Daði og félagar hans í Gummersbach töpuðu sínum fyrsta leik í kvöld. Getty Images

Gummarsbach, undir stjórn Guðjóns Vals Sigurðssonar og með þá Hákon Daða Styrmisson og Elliða Snær Viðarsson innanborðs, máttu þola sitt fyrsta tap í þýsku B-deildinni í handbolta á tímabilinu er liðið heimsótti Rostock. Lokatölur urðu 34-33, en Gummersbach heldur toppsæti deildarinnar.

Mikið jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik, alveg þangað til að heimamenn í Rostock náðu fjögurra marka forskoti stuttu fyrir hlé. Þegar flautað var til hálfleiks var staðan 19-16, Rostock í vil.

Gestirnir í Gummersbach voru þó ekki lengi að jafna leikinn í upphafi seinni hálfleiks og liðin héldust í hendur lengi vel. Þegar um tíu mínútur voru til leiksloka náðu heimamenn þó aftur þriggja marka forskoti.

Liðsmenn Gummersbach náðu loksins að jafna leikinn þegar tæp mínúta var til leiksloka, en það voru heimamenn sem áttu lokaorðið og tryggðu sér sigur með minnsta mun, 34-33.

Elliði Snær skoraði þrjú mörk fyrir Gummersbach, en Hákon Daði hafði hægt um sig og skoraði eitt mark.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×