Elliði Vignisson, bæjarstjóri sveitarfélagsins Ölfuss, segir að vel hafi gengið í dag. Þorlákshöfn skarti sínu fegursta í góða veðrinu. Elliði hvetur fólk til að nýta helgina enda sé keyrslan stutt fyrir fjölmarga.

„Þetta gengur mjög vel og virkilega gaman að sjá hvað fólk hefur mikinn áhuga á þessu enda ekki á hverjum degi sem hægt er að nálgast svona heillegan hval á aðgengilegan máta.
Það var reyndar einhver sem að færðist kapp í kinn og fór á bíl í fjöruna. Eðli málsins samkvæmt festi hann sig þar en það var nú bara smávægilegt. Við erum með góða og lipra björgunarsveit sem fór og aðstoðaði,“ segir Elliði léttur í bragði.
Til stendur að farga hvalnum á þriðjudaginn næstkomandi en óvíst er hvort hvalurinn verði dreginn á haf út eða hann verði urðaður í fjörunni. Kosturinn fyrrnefndi þykir þó vænlegri enda fjaran vinsælt útivistarsvæði. Bæði heimamenn og gestir fari þangað að ganga og aðrir stunda brimbrettaiðkun.
Að neðan má sjá myndband af hvalrekanum sem Donatas Arlauskas tók í vikunni.



