Handbolti

Robbi Gunn brjálaður að missa markametið sitt í Danmörku

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Róbert Gunnarsson skoraði grimmt fyrir Århus tímabilið 2004-05.
Róbert Gunnarsson skoraði grimmt fyrir Århus tímabilið 2004-05. getty/Lars Ronbog

Nýr aukaþáttur af Seinni bylgjunni hefur göngu sína á Stöð 2 Sport í dag. Hann nefnist einfaldlega Seinni bylgjan extra en þar tekur Stefán Árni Pálsson leikmenn Olís-deildar karla tali.

Fyrsti þátturinn er á dagskrá Stöðvar 2 Sports klukkan 21:00 í kvöld. Þar verður rætt við Gunnar Stein Jónsson sem sneri heim í sumar eftir langa dvöl í atvinnumennsku og gekk í raðir Stjörnunnar.

Gunnar Steinn og félagar í Stjörnunni hafa farið einkar vel af stað og unnið alla fimm leiki sína í Olís-deildinni.

„Það eru alveg fimm til sex lið sem eru á svipuðu róli og við erum þar. Við höfum byrjað mjög vel en höfum verið nokkuð stöðugir. Við eigum enn helling inni og getum bætt okkur á mjög mörgum sviðum,“ sagði Gunnar Stein.

Hann gaukaði því að Stefáni Árna að markamet Róberts Gunnarssonar í dönsku úrvalsdeildinni hefði fallið á síðasta tímabili. Róbert hafði lítinn húmor fyrir því að missa.

„Það er rétt, því miður,“ sagði Róbert sem var í Seinni bylgjunni á laugardaginn. „Ég þoli ekki þegar fólk segist vera ánægt með að metið þess hafi verið slegið. Ég er hundfúll yfir því. Það var geggjað að eiga þetta met.“

Róbert skoraði 241 mark fyrir Århus tímabilið 2004-05. Emil Jakobsen, þáverandi leikmaður GOG, sló metið á síðasta tímabili þegar hann skoraði 242 mörk. Hann leikur núna með Flensburg í Þýskalandi.

Róbert lék með Århus á árunum 2002-05. Hann gekk aftur í raðir félagsins 2016 og lék með því síðustu tvö ár ferilsins. 


Olísdeildirnar í handbolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Olísdeildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði.


Tengdar fréttir

„Betri heima en á parketinu í Safamýri“

„Á meðan hún stendur sig á parketinu eins og hún gerði í síðasta leik að þá er þetta þess virði. Þú þarft að vinna svolítið fyrir því að fá þessar pásur frá krakkanum,“ grínast Þorgrímur Smári Ólafsson sem er heimavinnandi húsfaðir á meðan að Karen Knútsdóttir blómstrar á toppi Olís-deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×