Yfirmaður gervigreindardeildar tæknirisans Facebook sagði í tilkynningu í dag að fyrirtækið væri að reyna að vega og meta áhrif andlitsgreiningartækninnar á tíma þar sem notendur hafa sívaxandi áhyggjur af persónuverndarmálum og löggjafinn hefur ekki gefið út skýrar reglur. Því verði gögnum um meira en milljarð andlit eytt.
Facebook hefur staðið í miklum ólgusjó síðustu vikur og mánuði þar sem gögn sem lekið var innan úr fyrirtækinu gefa til kynna að forsvarsfólk hafi virt að vettugi vísbendingar um skaðleg áhrif miðla þeirra, til að skaða ekki arðsemi.
Fyrir helgi var tilkynnt um nýtt nafn fyrir móðurfélag Facebook, sem mun nú heita Meta.
Facebook svaraði ekki fyrirspurnum frá AP um hvort eða hvernig notendur gætu gengið úr skugga um að andlitsgreiningargögnum þeirra hafi verið eytt, eða hvað verði nú gert við tæknina sem hafði verið þróuð í þessum tilgangi.