Eftir að hafa leikið 74 leiki og skorað tíu mörk fyrir PSV Eindhoven samdi Ihattaren við Juventus í sumar og skrifaði undir fjögurra ára samning við félagið. Hann var strax lánaður til Sampdoria en hefur ekki enn spilað fyrir liðið.
Raunar hefur Ihattaren ekki sést í Genúa síðan 12. október en hann er í Hollandi vegna fjölskyldumála. Faðir hans lést fyrir tveimur árum og Ihattaren hefur ekki enn jafnað sig á því. Hann glímir við mikið þunglyndi og ku velta því alvarlega fyrir sér hvort hann eigi hreinlega að hætta í fótbolta.
Hollenskum fjölmiðlum hefur gengið illa að ná í Ihattaren undanfarnar vikur og Juventus og Sampdoria hafa ekkert gefið upp um stöðu mála hjá honum og virðast hreinlega vita lítið um hann. Þá hefur Ihattaren ekki sést í Utrecht, heimaborg sinni, síðan hann sneri aftur til Hollands frá Ítalíu.
Ihattaren varð Evrópumeistari með U-17 ára landsliði Hollands 2018. Hann var valinn í A-landsliðið haustið 2020. Ihattaren hefði einnig getað spilað fyrir landslið Marokkó, heimaland foreldra sinna.