Sigurinn, sá sjötti í sjö leikjum hjá nýliðunum, færði liðinu ekki aðeins toppsæti deildarinnar, heldur var þetta líka langþráður sigur á nágrönnunum úr Keflavík.
Aliyah Collier var frábær í leiknum með 27 stig, 16 fráköst, 10 fiskaðar villur og 5 stoðsendingar. Diane Diéné skoraði 19 stig og Lavinia Da Silva var með 14 stig, 12 fráköst og 5 stoðsendingar. Kamilla Sól Viktorsdóttir var stigahæst íslensku stelpnanna með 8 stig.
Njarðvík hafði ekki unnið Keflavík í efstu deild kvenna síðan 22. janúar 2014 eða næstum því átta ár.
Njarðvík vann Keflavík í Keflavík þennan janúardag fyrir 93 mánuðum síðan en frá þeim leik höfðu Keflavíkurkonur unnið Njarðvík níu sinnum í röð í úrvalsdeild kvenna.
Einn leikmaður Keflavíkur í gær, Salbjörg Ragna Sævarsdóttir, tók þátt í þeim leik en þá var hún leikmaður Njarðvíkurliðsins.
Þar sem síðasti sigur Njarðvíkur á Keflavík var á Sunnubrautinni þarf að fara enn lengra aftur til að finna Njarðvíkursigur á móti Keflavík í Ljónagryfjunni.
Sigurinn í Ljónagryfjunni í gær var fyrsti heimasigur Njarðvíkurkvenna á Keflavík í efstu deild síðan 4. desember 2011 eða í næstum því heilan áratug. Njarðvík hafði fyrir leikinn tapað níu heimaleikjum í röð á móti Keflavík.