Greint var frá því í fréttum Stöðvar 2 að þegar eldgosið stóð sem hæst í sumar hafi kviknað sú hugmynd að gera sjónvarpsþátt með Guðbergi að fylgjast með hrauninu leggjast yfir jörðina þar sem hann fæddist. Enda var því spáð að hraunið gæti náð Ísólfsskála á einni til tveimur vikum.

Meðan frændfólk hans þusti til að bera verðmæti úr húsum og fornleifafræðingar flýttu sér að rannsaka minjar var Guðbergur sallarólegur gagnvart hrauninu, sagði það hafa vit á því að vera ekkert að eyðileggja Ísólfsskála.
Skemmst er frá því að segja að ekkert hefur núna sést til hraunsrennslis frá því um miðjan september og sjónvarpsþátturinn sem átti að vera um eyðingu jarðarinnar hefur eðli máls tekið nýja stefnu. Guðbergur fór nefnilega að segja okkur krassandi sögur frá Ísólfsskála, meira að segja af karlamálum ömmu sinnar, sem átti tólf börn með tveimur mönnum og skipti þeim jafnt á báða.

„Það vissi enginn hvort að yngsta barnið hennar ömmu væri barnið hans Vilhjálms, afa míns, eða Gvendar. Vegna þess að hún hefur verið með báðum,“ segir Guðbergur.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2:
Mergjaðar sögur Guðbergs frá Ísólfsskála má heyra í þættinum Um land allt, sem frumsýndur var á Stöð 2 klukkan 19:10 í kvöld. Hér má kynningarstiklu þáttarins: