Margir eru á því að það sé enginn að spila betur þessa dagana en Mohamed Salah með Liverpool enda skorar kappinn næstum því í hverjum leik.
Xavi Hernández er nýtekinn við sem þjálfari Barcelona og goðsögn félagsins er ætlað að rífa liðið í gang eftir erfiðaleika síðustu ára.
Barcelona president Joan Laporta has his orders - Xavi wants him at all costs and wants to build his team around the superstar... https://t.co/ruXTIIHW38
— SPORTbible (@sportbible) November 15, 2021
Peningavandræði og fullt köttum í sekkjum hafa séð til þess að Barcelona er ekki lengur í hópi bestu liða Evrópu.
Spænski fjölmiðillinn El Nacional heldur því fram að Xavi sé með Mohamed Salah efstan á óskalista sínum og að hann vilji gera allt til þess að fá hann til Barcelona.
Liverpool hefur selt bæði Luis Suarez og Philippe Coutinho til Barcelona og Salah yrði þá þriðja súperstjarna félagsins til að yfirgefa það á hápunkti ferils síns.
Samingur Salah rennur út í júní 2023 og næsta sumar er því síðasta sumarið þar sem Liverpool getur ætlast til að fá alvöru pening fyrir hann.
Salah hefur ekkert farið leynt með ást sína á Liverpool en segir jafnframt að það sé ekki hans ákvörðun hvort hann spili áfram með félaginu.
„Ef þú ert að spyrja mig þá myndi ég elska það að spila hér til loka ferilsins en ég get ekki sagt mikið um það því þetta er ekki í mínum höndum,“ sagði Mohamed Salah í viðtali við Sky Sports.
„Núna gæti ég aldrei séð mig spila á móti Liverpool. Ég yrði þá mjög leiður. Ég vil ekki ræða þann möguleika því það myndi gera mig virkilega leiðan,“ sagði Salah.
Áhugi Barcelona er eitt en hvort félagið eigi peninga til að kaupa Mo Salah er allt annað mál. Liðið eyddi risaupphæð í Philippe Coutinho og það eru ein verstu kaup Barca og ein besta sala Liverpool frá upphafi.