Sport

Fallon Sherrock mætir fyrrverandi heimsmeistara í átta manna úrslitum

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Fallon Sherrock heldur áfram að skrifa pílusöguna.
Fallon Sherrock heldur áfram að skrifa pílusöguna. Alex Pantling/Getty Images

Öskubuskuævintýri Fallon Sherrock heldur áfram eftir að þessi 27 ára pílukona sló Mensur Suljovic úr leik á Grand Slam of Darts-pílumótinu fyrr í kvöld og tryggði sér þar með sæti í átta manna úrslitum.

Sherrock varð á þriðjudaginn fyrsta konan til að komast í útsláttarkeppni Grand Slam of Darts, og hún bætti um betur í kvöld þegar hún sló Austurríkismanninn Suljovic úr leik. Suljovic vann fyrstu tvo leggina, en þrátt fyrir það vann Sherrock nokkuð örugglega 10-5.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Sherrock skráir sig á spjöld pílusögunnar, en árið 2019 varð hún fyrsta konan til að vinna leik á stærsta móti heims, sjálfu heimsmeistaramótinu.

Sherrock mætti einmitt Suljovic í 2. umferð heimsmeistaramótsins það ár og hafði þá einnig betur, 3-1. Þá var Suljovic í 11. sæti heimslistans.

Í átta manna úrslitum mætir hún engum öðrum en Peter Wright, fyrrverandi heimsmeistara. Wright sló ríkjandi Grand Slam of Darts-meistarann José de Sousa úr leik í æsispennandi viðureign fyrr í kvöld.

Ásamt Sherrock og Wright eru þeir Michael Smith, Gerwyn Price, Rob Cross, James Wade, Jonny Clayton og Michael van Gerwen komnir í átta manna úrslit.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×