Fótbolti

Tvenna Zlatan dugði skammt þegar AC Milan tapaði í fyrsta sinn

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Dusan Vlahovic.
Dusan Vlahovic. vísir/Getty

AC Milan er ekki lengur taplaust í ítölsku úrvalsdeildinni eftir að hafa heimsótt Flórens í kvöld.

Heimamenn í Fiorentina léku við hvurn sinn fingur og Alfred Duncan kom þeim í forystu á 15.mínútu. Riccardo Saponara skoraði annað mark heimamanna í uppbótartíma fyrri hálfleik og staðan í leikhléi því 2-0 fyrir Fiorentina.

Serbneski markahrókurinn Dusan Vlahovic kom Fiorentina í 3-0 eftir klukkutíma leik en þá tók Zlatan Ibrahimovic við sér í liði gestanna og skoraði tvö mörk með skömmu millibili. Staðan skyndilega orðin 3-2 og enn tuttugu mínútur eftir af leiknum.

Vlahovic vildi ekki vera minni maður en Zlatan og kom Fiorentina í 4-2 með öðru marki sínu. Á sjöttu mínútu uppbótartímans skoraði Lorenzo Venuti sjálfsmark og minnkaði muninn í 4-3 en fleiri urðu mörkin ekki og fyrsta tap AC Milan í ítölsku úrvalsdeildinni á tímabilinu staðreynd.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×