Það kom nefnilega upp babb í bátinn um helgina þegar Crewe Alexandra ætlaði að verðlauna besta leikmann sinn í 2-0 sigri á Gillingham í ensku C-deildinni.
Besti maður vallarins miðvörðurinn og Walesbúinn Zac Williams sem stóð sig frábærlega í miðri vörn Crewe liðsins. Vandamálið var að Zac Williams er fæddur í mars 2005 og því enn bara sextán ára gamall.
When you're not old enough to enjoy the Man of the Match champagne #CreweAlex pic.twitter.com/ac1RB7ummX
— Crewe Alexandra (@crewealexfc) November 20, 2021
Það þótti því skiljanlega ekki við hæfi að afhenta stráknum kampavínsflösku eftir leikinn.
Starfsmenn Crewe urðu að finna eitthvað annað og endanum fékk strákurinn snakk og kökur í verðlaun fyrir að vera maður leiksins.
Það er ekki eins og einhver hafi búist við þessu fyrir fram. Zac var í byrjunarliðinu í fyrsta sinn og hafði aðeins leikið einn deildarleik áður.
Hann steig inn í miðja vörnina og Crewe liðið vann ekki aðeins fyrsta deildarleik sinn síðan 18. september heldur hélt liðið hreinu í fyrsta sinn í ellefu deildarleikjum.
Williams spilaði í þriggja miðvarða vörn Crewe í leiknum en með honum voru hinn 21 árs gamli Billy Sass-Davies og hinn 22 ára gamli Luke Offord. Það er því sérstakt að vera bara 22 ára gamall en samt sex árum eldri heldur en félagi þinn í miðverðinum.