Umræddar keðjur eru Walgreens, CVS og lyfjaverslanir Walmart.
Dómurinn féll í Ohio, þar sem verslanirnar voru sakaðar um að hafa lagt sitt á vogarskálarnar til að kynda undir ofneyslu ávanabindandi verkjalyfja í tveimur sýslum.
Milljónir Bandaríkjamanna eru sagðir hafa ánetjast sterkum ópíóíðum á síðasta áratug en um er að ræða verkjalyf á borð við Fentanyl og OxyContin. Ofnotkunin hefur verið rakin til frjálslegra ávísana á lyfin og misnotkun þeirra.
Ofneysla lyfjanna er sögð hafa valdið nærri 500 þúsund dauðsföllum í Bandaríkjunum á árunum 1999 til 2019.
3.300 mál fyrir dómstólum
Yfirvöld segja faraldurinn hafa sett gríðarlegt álag á heilbrigðiskerfið, þar sem þess hefur verið freistað að mæta vandanum í gegnum bæði félagslega kerfið og dómskerfið. Áætlað er að um 3.300 mál hafi verið höfðuð fyrir dómstólum til að freista þess að sækja þessi útgjöld aftur til framleiðenda lyfjanna, lækna og lyfjaverslana.
Lögmenn sýslanna tveggja í Ohio, Lake og Trumbull, segja kostnað þeirra vegna ópíóíðafaraldursins mögulega um milljarð dala í hvorri sýslu fyrir sig. Dómurinn yfir lyfjaverslanakeðjunum sé löngu tímabær en málið gegn þeim byggði meðal annars á því að verslanirnar hefðu ekki hirt nógu vel um að ávisanirnar sem þær leystu út væru réttmætar.
Talsmenn CVS hafa greint frá því að fyrirtækið hyggjast áfrýja dómnum en ekki náðist í forsvarsmenn hinna keðjanna.