Kjörbréfanefnd kom saman til fundar klukkan níu í morgun þar sem gengið var frá nefndarálitum og tillögum til þingsins um hvernig skuli afgreiða kjörbréfin. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Flokks fólksins sem mynda meirihuta í nefndinni leggja til að öll kjörbréf verði samþykkt.
Fulltrúar þessara flokka í kjörbréfanefnd eru fyrir Sjálfstæðisflokk Birgir Ármannsson formaður nefndarinnar, Diljá Mist Einarsdóttir og Vilhjálmur Árnason. Fyrir Framsóknarflokk Líneik Anna Sævarsdóttir og Jóhann Friðrik Friðriksson. Inga Sæland er síðan fulltrúi Flokks fólksins.
Í minnihlutatillögu fulltrúa Vinstri grænna og Samfylkingar, þeirra Svandísar Svavarsdóttur og Þórunnar Sveinbjarnardóttur er lagt til að fjörtíu og sjö kjörbréf verði staðfest. Það er allra þingmanna annarra en kjördæmakjörinna þingmanna í Norðvesturkjördæmi og níu jöfnunarþingmanna. Ef sú tillaga yrði samþykkt yrði að boða til uppkosninga í Norðvesturkjördæmi.
Þriðja tillagan kemur síðan frá Birni Leví Gunnarssyni fulltrúa Pírata í kjörbréfanefnd um að ekkert kjörbréfanna verði staðfest. Ef sú tillaga yrði samþykkt yrði að boða til nýrra alþingiskosninga í öllum kjördæmum.
Þótt Svandís og Þórunn sameinist um tillögu leggja þær þó fram sitt hvort nefndarálitið þar sem þær færa að einhverju leyti ólík rök fyrir tillögunni. Meirihlutinn er saman á áliti og Björn Leví er einn á sínu áliti.