BBC hefur tekið saman fregnir staðarmiðlanna og segir í frétt breska miðilsins að sérstök kórónuveirunefnd ríkisstjórnarinnar hafi samþykkt tillögurnar. Búist er við því að ríkisstjórn Ísraels muni samþykkja komubannið í dag og að það muni taka gildi á miðnætti.
Þá er einnig búist við því að yfirvöldum verði heimilað að hafa eftirlit með þeim sem greinast með kórónuveiruna og mun öryggistofnunin Shin Bet, sem hefur það hlutverk að gæta innra öryggis Ísrael, sinna eftirlitinu, sem verður framkvæmt með því að fylgjast með ferðum síma þeirra sem smitast.
Einnig er reiknað með að bólusettir Ísraelar sem komi til landsins þurfi að sæta þriggja daga sóttkví við komuna en óbólusettir sjö daga sóttkví.
Einn einstaklingur hefur verið greindur með afbrigðið í Ísrael hingað til.
Ómíkron-afbrigðið var fyrst tilkynnt til Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar þann 24. nóvember. Afbrigðið er mikið stökkbreytt og gefa rannsóknir til kynna að það smitist auðveldar manna á milli og hafa vísindamenn áhyggjur af því að það gæti komist í gegnum bólusetningar vegna stökkbreytinganna.