Þrír voru handteknir í tengslum við málið aðfaranótt þriðjudags í aðgerð sérsveitar ríkislögreglustjóra en sveitin var kölluð til að tryggja vettvang og eyða sprengjunni.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu þar sem staðfest er að um hafi verið að ræða heimatilbúna sprengju. Í fyrri tilkynningu kom einungis fram að sérsveitin hefði verið kölluð út eftir að grunsamlegur hlutur fannst í ruslagámi í Mánatúni.
Tveir af mönnunum þremur sem handteknir voru hafa hafið afplánun vegna fyrri refsidóma en þriðja manninum hefur verið sleppt. Að sögn lögreglu miðar rannsókn málsins vel en ekki verða veittar frekari upplýsingar um það að svo stöddu.