Skoðun

Eru launa­hækkanir að sliga ís­lenskt at­vinnu­líf?

Óðinn Gestsson skrifar

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, velti því upp í nýlegri grein á Vísi hvort launahækkanir væru að sliga íslenskt atvinnulíf. Þeirri spurningu er bæði rétt og skylt að svara og byrjum því á að fara yfir nokkrar staðreyndir sem virðast vefjast fyrir forsvarsmönnum verkalýðshreyfingarinnar.

Hér eru nokkrar staðreyndir um raunveruleika lítilla fyrirtækja á Íslandi sem starfa í raunhagkerfinu við framleiðslu á sjávarafurðum:

  • Verðbólga í Evrópu hefur sjaldan verið meiri og í Bandaríkjunum mælist hún um 6%. Þrýstingur er á verðlagshækkanir vegna þessa, og vegna mikilla verðhækkana á hrávöru, orku og eldsneyti.
  • Fyrirtækin skulda meira en heimilin. Vaxtahækkanir munu því auka vaxtakostnað fyrirtækja.
  • Miklar hækkanir á húsnæðismarkaði hafa keyrt húsnæðiskostnað upp.
  • Hækkun á launum kemur illa við lítil fyrirtæki, sérstaklega á landsbyggðinni, þar sem aðföng hækka í verði um leið og laun hækka.
  • Laun hækkuðu um 10,8% á milli áranna 2019 og 2020, en tekjurnar jukust um 0,2%. Það gengur því ekki að hækka laun ítrekað og mun það á endanum fara illa, nema eitthvað annað komi til.
  • Fyrirtækin bregðast að einhverju leyti við hækkandi kostnaði með aukinni tæknivæðingu sem leiðir til fækkunar á störfum.
  • Erlendir samkeppnisaðilar við vinnslu sjávarafurða búa við lægra launahlutfall en þeir íslensku.
  • Verksmiðja í ESB landi, sem reiðir sig á styrkjakerfi sambandsins við fjárfestingar í húsnæði og tækjum, notar starfsfólk frá Austur-Evrópu og greiðir 500 evrur í lágmarkslaun á mánuði. Íslensk fyrirtæki greiða að lágmarki 2.500 evrur í mánaðarlaun, eða fimm sinnum hærri laun.
  • Hér er vert að hafa í huga að verið er að framleiða vöru fyrir sama markað og í mörgum tilfellum er fiskurinn íslenskur á báðum stöðum.
  • Það sér hver maður sem kýs að sjá, að samkeppni af þessu tagi mun leiða til þess að vinnsla á íslensku sjávarfangi fer halloka. Vinnslan gæti, ef illa fer, færst úr landi og hefur í raun, að hluta til, gert það.
  • Lítil íslensk fyrirtæki eru verðmæt fyrir Ísland, sérstaklega landsbyggðina. Það er því skammgóður vermir að keyra þau í kaf með innistæðulausum launahækkunum sem eru úr takti við framleiðslu og verðmætaaukningu sem ekki er sjálfgefin.

Það að taka alltaf árangur tuttugu stærstu fyrirtækja landsins og nota sem mælikvarða á það hvort svigrúm sé í kerfinu fyrir launahækkunum er einfaldlega röng nálgun. Það verður að taka tillit til stærðar fyrirtækja en tæplega 90% fyrirtækja í landinu eru lítil- eða meðalstór.

Þess vegna er afar mikilvægt að stíga varlega til jarðar, svo að fyrirtækjum verði ekki gert að taka á sig innistæðulausar launhækkanir, sem leiða til verðbólgu, vegna velgengni fyrirtækja sem þau eiga ekkert skylt við.

Höfundur er framkvæmdastjóri Fiskvinnslunnar Íslandssögu hf.




Skoðun

Sjá meira


×