Origi kom inn á sem varamaður fyrir Jordan Henderson þegar rúmar tuttugu mínútur voru til leiksloka. Á fjórðu mínútu uppbótartíma skoraði hann fyrsta og eina mark leiksins, og tryggði Liverpool þar með stigin þrjú, og toppsæti deildarinnar í nokkrar klukkustundir.
„Hann er frábær leikmaður og geggjaður gæji,“ sagði Klopp í samtali við BBC eftir sigurinn.
„Að koma inn á og leggja sitt af mörkum fyrir liðið eins og hann gerði í dag, að skora þetta mark - framúrskarandi. Ég er mjög, mjög glaður fyrir hans hönd.“
Origi er í miklu uppáhaldi hjá stuðningsmönnum Liverpool, en þetta var ekki í fyrsta skipti sem hann skorar mark undir lok leiks. Mark gærdagsins var hans tíunda eftir að hafa komið inn á sem varamaður, en enginn leikmaður hefur skorað meira fyrir Liverpool í ensku úrvalsdeildinni eftir að hafa komið inn á sem varamaður. Leikur gærkvöldsins markaði líka áhugaverð tímamót fyrir Origi, en þetta var í hundraðasta skipti sem hann kemur inn á sem varamaður fyrir Liverpool.
„Divock Origi er goðsög. Fólk mun skrifa bækur um hann, vonandi. Ef ekki þá geri ég það,“ sagði Klopp léttur.
„Hann er magnaður framherji. Af ýmsum ástæðum hefur hann ekki spilað mjög mikið, en ég vona að einn daginn finni hann þjálfara sem gefur honum fleiri mínútur en ég.“
„Hann er einn sá besti sem ég hef séð í að klára færi. Í þessu frábæra liði, með þessa sóknarlínu, spilar hann ekki mjög mikið. En hann er jákvæður strákur, elskar klúbbinn, vill leggja sitt af mörkum, og hann gerði það með stæl í kvöld.“