Fótbolti

Fyrrverandi þjálfari Víkings og Breiða­bliks að taka við Rosen­borg

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Milos er í þann mund að taka við Rosenborg virðist vera. Hann þjálfaði Hammarby í Svíþjóð á nýafstaðinni leiktíð.
Milos er í þann mund að taka við Rosenborg virðist vera. Hann þjálfaði Hammarby í Svíþjóð á nýafstaðinni leiktíð. Hammarby

Milos Milojevic er við það að taka við norska stórveldinu Rosenborg. Milos lék lengi vel hér á landi og þjálfaði svo bæði Víking og Breiðablik frá 2013 til 2017. Nú virðist sem hann sé á leiðinni að taka við einu stærsta liði Skandinavíu.

Milos þjálfaði Hammarby í Svíþjóð á liðinni leiktíð en félagið endaði í 5. sæti sænsku úrvalsdeildarinnar. 

Þar áður var hann aðstoðarþjálfari Rauðu Stjörnunnar í Serbíu en þangað fór hann eftir að þjálfa Mjällby í Svíþjóð.

Norski miðillinn Nettavisen telur Milos nú líklegastan til að taka við af Åge Hareide, fráfarandi þjálfara Rosenborgar. Milos var fyrst orðaður við stjórastöðuna í Þrándheimi í byrjun nóvember.

Norska stórveldið reyndi að fá Kjetil Knutsen, þjálfara Alfsons Sampsted hjá meistaraliði Bödo/Glimt en Kjetil ku hafa neitað því tilboði. 

Hann er í þann mund að gera Bödo/Glimt að meisturum annað árið í röð á meðan Rosenborg er í 4. sæti deildarinnar þegar ein umferð er eftir.

Nettavisen greindi frá nú í kvöld að Milos sé nú þegar kominn til Þrándheims til að semja við félagið.

Landsliðsmiðvörðurinn fyrrverandi Hólmar Örn Eyjólfsson er leikmaður Rosenborgar. Samningur hans gildir til ársins 2023 en talið er að hann gæti verið á heimleið á nýju ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×