Aspas var fljótur að hugsa eftir að hafa meiðst þegar hann skoraði fyrir Celta á 11. mínútu. Hann klæddi sig strax úr treyjunni, vitandi það að hann fengi gult spjald eins og alltaf þegar leikmenn afklæðast eftir að hafa skorað mark.
Þar sem þetta var fimmta áminning Aspas á leiktíðinni fékk hann eins leiks bann. Bannið getur þessi 34 ára leikmaður því tekið út á meðan að hann jafnar sig af meiðslum sínum.
Iago Aspas was a yellow card away from a one match suspension.
— ESPN FC (@ESPNFC) December 6, 2021
After injuring himself while scoring, he appeared to take off his shirt so he could serve his punishment while recovering pic.twitter.com/ONKvGkuFvJ
Það á hins vegar eftir að koma í ljós hvort að Aspas verði refsað fyrir tiltækið með sekt eða lengra banni. UEFA úrskurðaði til að mynda Sergio Ramos, þáverandi leikmann Real Madrid, í lengra bann eftir að hann náði sér vísvitandi í áminningu í leik gegn Ajax í Meistaradeild Evrópu árið 2019.
Aspas kom Celta yfir í leiknum en Valencia vann 2-1. Celta er því í 14. sæti deildarinnar með 16 stig en Valencia í 8. sæti með 22 stig.
Aspas hefur leikið nær allan sinn feril með Celta Vigo en hann lék þó eina leiktíð með Liverpool veturinn 2013-2014, en var langt frá því að slá í gegn þar.
Hann hefur skorað að minnsta kosti 14 deildarmörk á hverri einustu leiktíð með Celta Vigo frá árinu 2015 og er kominn með sjö mörk í 16 deildarleikjum í vetur.