Erlent

Bandaríkjamenn hóta hörðum viðbrögðum en Pútín segir Rússa ekki ætla að ráðast inn í Úkraínu

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Forsetarnir ræddu saman gegnum fjarfundabúnað.
Forsetarnir ræddu saman gegnum fjarfundabúnað. AP/Adam Shultz

Bandaríkjamenn segjast vera að undirbúa sig undir að svara mögulegri árás Rússa á Úkraínu með afgerandi hætti. Þetta kom fram í máli Joe Bidens Bandaríkjaforseta á tvíhliða fundi sem hann átti með rússneskum kollega sínum Vladimir Pútín í gærkvöldi.

Biden sagðist hafa verulegar áhyggjur af því að Rússar væru að fjölga mjög í herliði sínu við landamæri Úkraínu og þá hótaði hann Pútín með efnahagslegum þvingunum en einnig öðrum aðgerðum. 

Rússar segjast hinsvegar alls ekki hafa í hyggju að ráðast á Úkraínu. 

Pútín sakaði Úkraínumenn þó um að ögra Rússum og á fundinum með Biden fór hann einnig fram á loforð um að NATO, Norðuratlantshafsbandalagið, ætlaði sér ekki að færa áhrifasvæði sitt lengra í austur og koma upp vopnum í grennd við Rússland. 

Viðræður forsetanna fóru fram í gegnum fjarfundarbúnað. Að loknum fundi sagði Jake Sullivan öryggisráðgjafi forsetans að verið væri að undirbúa aðgerðir, verði af innrás Rússa og sagði hann Bandaríkjamenn nú tilbúna í aðgerðir sem þeir hafi ekki viljað fara í árið 2014, og vísaði þar til innlimunar Rússa á Krímsskaga.


Tengdar fréttir

Vilja rússneska hermenn frá landamærum Úkraínu

Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hvatti ráðamenn í Rússlandi til að flytja hermenn sína á brott frá landamærum Úkraínu. Hann sagði að innrás í Úkraínu myndi hafa afleiðingar og meðal annars yrðu hinum ströngustu refsiaðgerðum beitt gegn Rússlandi.

Sagði rússneska menn hafa ætlað að fremja valdarán í Úkraínu

Vólódómír Selenskí, forseti Úkraínu, segir að komist hafi upp um tilraun til valdaráns þar í landi. Til hafi staðið að fella ríkisstjórn hans í næstu viku og að aðilar frá Rússlandi hafi náðst á upptöku reyna að fá ríkasta auðjöfur Úkraínu til að taka þátt í valdráninu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×