Eyríkið, sem Kína gerir tilkall til og hefur heitið að sameina meginlandinu, rekur sambærilegar skrifstofur víða um Evrópu í Bandaríkjunum en þær bera nafn Taipei, höfuðborgar landsins.
Stjórnarflokkar Litháens samþykktu fyrir rúmu ári síðan að styðja „þá sem berjast fyrir frelsi í Taívan,“ eins og það var orðað. Í kjölfar opnunar skrifstofunnar kvörtuðu Kínverjar yfir því að Litháar hefðu hunsað viðvaranir þeirra og takmörkuðu samskipti ríkjanna.
Háttsettur embættismaður frá Litháen sagði Reuters fréttaveitunni nýverið frá kröfum Kínverja og að alþjóðleg fyrirtæki hafi þegar slitið samningum við fyrirtæki í Litháen.
„Þeir [Kínverjar] hafa sent þau skilaboð til alþjóðlegra fyrirtækja að ef þau noti vörur eða birgðir frá Litháen, muni þau ekki geta selt vörur sínar á kínverskum mörkuðum eða keypt vörur þar,“ sagði Mantas Adomenas, aðstoðarutanríkisráðherra Litháens.
Hann vildi hvorki nefna þau fyrirtæki sem eiga að hafa slitið tengsl við fyrirtæki í Litháen, né þau fyrirtæki sem hafi misst samninga. Né vildi hann segja hve mörg þau væru.
Fréttaveitan segir bein viðskipti Litháens og Kína tiltölulega lítil. Mikill fjöldi litháenskra fyrirtækja framleiði hins vegar vörur og annað fyrir alþjóðleg fyrirtæki sem selji þær svo í Kína.
Fyrr í haust ráðlögðu stjórnvöld í Litháen íbúum að farga kínverskum símum og kaupa ekki nýja síma frá kínverskum framleiðendum. Það væri meðal annars vegna öryggisgalla og sjálfvirks ritskoðunarbúnaðar.
Samkvæmt skýrslu öryggismálastofnunar Litháen fannst ritskoðunarbúnaður á vinsælasta síma fyrirtækisins Xiaomi, sem nam meðal annars og eyddi texta á borð við „Frelsið Tíbet“, „Lengi lifi sjálfstætt Taívan“ og „lýðræðishreyfing“.
Sjá einnig: Stjórnvöld í Litháen hvetja landsmenn til að farga kínverskum símum
Minnst eitt fyrirtæki slitið tengsl
Samtök atvinnulífsins í Lithaáen staðfestu frásögn Adomenas við Reuters. Vidmantas Janulevicius, framkvæmdastjóri samtakanna, sagði að fyrsta alþjóðlega fyrirtækið hefði slitið tengsl við Litháen í þessari viku. Hótanir um að slíkt gæti gerst höfðu borist áður en nú hafi það raungerst.
„Fyrir okkur er það versta að þetta er evrópskt fyrirtæki,“ sagði Janulevicius. Hann sagði mörg litháísk fyrirtæki framleiða fyrir fyrirtæki eins og það sem um ræðir.
Ríkisstjórn landsins á í viðræðum við fyrirtæki sem eiga á hættu að tapa viðskiptum og hefur meðal annars verið rætt um mögulega fjárhagslegan stuðning. Þá hefur ríkisstjórnin leitað stuðnings frá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og í bréfi til stjórnarinnar stóð að Evrópa þyrfti að gera Kínverjum ljóst að þrýstingur sem þessi væri óásættanlegur.
Adomenas sagði að Litháar myndu ekki gefa eftir og láta undan þrýstingi Kínverja.
„Við ákveðum hvað við gerum, að kalla Taívan Taívan. Ekki Peking.“