Fótbolti

Inter á toppinn en Napoli missteig sig

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Alexis Sanchez skoraði annað mark Inter í kvöld.
Alexis Sanchez skoraði annað mark Inter í kvöld. Marco Luzzani/Getty Images

Ítalíumeistarar Inter lyftu sér á topp Serie A með öruggum 4-0 sigri gegn Cagliari í kvöld, en Napoli mistókst að koma sér í annað sæti deildarinnar er liðið tapaði 0-1 gegn Empoli.

Lautaro Martinez kom Inter yfir gegn Cagliari á 29. mínútu eftir stoðsendingu frá Hakan Calhanoglu. Hann fékk svo tækifæri til að tvöfalda forystu heimamanna af vítapunktinum, en lét Alessio Cragno, markvörð Cagliari, verja frá sér. Calhanoglu náði frákastinu en tókst einhvernveginn að skófla boltanum framhjá markinu og staðan því enn 1-0 þegar flautað var til hálfleiks.

Alexis Sanchez tvöfaldaði forystu heimamanna á 50. mínútu, áður en Hakan Calhanoglu bætti þriðja marki Inter við stundarfjórðungi síðar.

Lautaro Martinez breytti stöðunni í 4-0 þegar rúmar tuttugu mínútur voru til leiksloka og gulltryggði sigur heimamanna.

Inter er nú á toppi deildarinnar með 40 stig eftir 17 leiki, einu stigi meira en nágrannar sínir í AC Milan sem sitja í öðru sæti. Cagliari vermir hins vegar næst neðsta sæti deildarinnar með tíu stig.

Þá fóru leikmenn Napoli illa að ráði sínu er liðið tapaði 0-1 gegn Empoli, en sigur hefði fært þá upp fyrir AC Milan í annað sæti deildarinnar á betri markatölu. 

Patrick Cutrone skoraði eina mark leiksins þegar hann tryggði Empoli sigurinn á 70. mínútu, en Empoli er nú í sjöunda sæti með 26 stig, tíu stigum á eftir Napoli sem sitja í fjórða sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×