Maja lýsti því á bloggsíðu sinni hve erfitt hefði verið að horfa upp á það sem gerðist í leiknum gegn Norwich, þegar Lindelöf hélt um brjóstkassann og varð að fara af velli.
„Það var hrollvekjandi að horfa á leikinn og Victor var mjög órólegur eftir á. Í gær fór hann í fullt af prófum og hann er með hjartsláttarmæli í tvo daga til að ganga úr skugga um að allt sé í lagi,“ skrifaði Maja sem fylgdist með leiknum í sjónvarpi.
„Þetta var ótrúlega óþægilegt, sérstaklega þar sem ég náði ekkert í hann eins og ég geri alltaf. Það var langt korter áður en ég náði í einhvern hjá félaginu sem gat upplýst mig,“ skrifaði Maja.
„Allt virðist vera í lagi sem betur fer en við bíðum eftir svörum úr síðustu prófunum,“ bætti hún við.
Þegar Ralf Rangnick, knattspyrnustjóri United, var spurður út í stöðuna á Lindelöf eftir leikinn á laugardag kvaðst hann lítið vita en sagði þó að Svíinn hefði átt erfitt með andardrátt. Öll próf hefðu þó komið vel út.
„Púlsinn hjá Lindelöf var hærri en eðlilegt er í yfir tíu mínútur. Hann var í sjokki yfir því og vissi ekki hvernig hann ætti að höndla það,“ sagði Rangnick.
Lindelöf og félagar í United áttu að mæta Brentford í kvöld en leiknum var frestað vegna kórónuveirusmita í liði United.
Í tilkynningu á heimasíðu United er tekið fram að allt bendi til þess að líðan Lindelöfs tengist ekki smitum í herbúðum félagsins.