Merson segir að Bielsa sé tregur til að breyta skipulagi liðsins þegar illa gengur og segir Wenger hafa verið eins undir lok síns þjálfaraferils.
„Þessi þrjóska í Bielsa að halda sig alltaf við sama leikkerfið minnir mig mikið á seinustu ár Wenger hjá Arsenal,“ sagði Merson á Sky Sports.
„Ég man þegar ég var að fjalla um leik Manchester United gegn Arsenal árið 2011. Arsenal mætti á Old Trafford með laskað lið og við töluðum allir um það uppi í stúdíói að Wenger þyrfti að breyta til og að hann gæti ekki látið liðið spila eins og ef allar stjörnurnar væru með.“
„En hvað gerði Wenger? Hann mætti, spilaði sama kerfi, og Arsenal tapaði leiknum 8-2. Ég mun aldrei gleyma þessu og þetta er nákvæmlega það sem ég er að sjá hjá Leeds undir Bielsa núna.“
Merson Says: Bielsa reminding me of Wenger pic.twitter.com/YQY5Vjr3pj
— Futball News (@FutballNews_) December 20, 2021
Leeds hefur ekki unnið í seinustu fjórum deildarleikjum sínum og í seinustu tveim hefur liðið fengið á sig ellefu mörk. Liðið tapaði 7-0 gegn Manchester City fyrir tæpri viku og 4-1 gegn Arsenal á laugardaginn.
„Þeir mættu Manchester City með enga leikmenn, en spiluðu nákvæmlega eins og þeir gera alltaf og þetta var vandræðalegt. Ég vorkenndi leikmönnunum. Þjálfarinn verður að hafa eitthvað annað plan þegar hann þarf á því að halda.“
„Leeds hafa verið algjörlega rassskelltir þegar þeim vantar nokkra af lykilmönnunum sínum, en þjálfarinn þarf að breyta til. Hann þarf að sætta sig við það að án þessara leikmanna þarf liðið að spila öðruvísi, koma sér fyrir aftan boltann, og gera andstæðingnum erfitt fyrir.“
„Ég meina, Arsenal var að klikka á dauðafærum á Elland Road og það voru varla fimm mínútur liðnar af leiknum. Það segir okkur allt sem við þurfum að vita.“
Þrátt fyrir slæmt gengi Leeds að undanförnu sér Merson þó ekki fyrir sér að liðið sé í fallhættu.
„Ég sé þá ekki falla, ekki séns. Þeir eru að fá lykilmenn til baka úr meiðslum bráðlega og það er undir þeim komið að snúa genginu við.“
Það sem ég hef mestar áhyggjur af hjá Leeds er að ég elska að horfa á þá spila, en það er ekki nógu gott. Sem hlutlaus aðdáandi þá elska ég að horfa á þá af því að þú veist að þú ert að fara að sjá skemmtilegan fótboltaleik. En það er ekki nógu gott, sérstaklega ekki þegar þú ert ekki að vinna fótboltaleiki,“ sagði Merson að lokum.