Gengi Newcastle á tímabilinu hefur ekki verið upp á marga fiska. Þrátt fyrir að Howe hafi verið ráðinn sem stjóri liðsins í byrjun nóvember eftir að Steve Bruce var látinn fara situr Newcastle í næst neðsta sæti deildarinnar með tíu stig, og það eina sem skilur liðið frá botnsætinu er örlítið betir markatala en Norwich er með.
Eins og áður segir varð Newcastle ríkasta félag heims þegar að sádi-arabíski fjárfestingasjóðurinn PIF keypti félagið í haust, og Amanda Staveley, sem fór fyrir yfirtökunni, hefur gefið það út að liðið ætli sér að berjast um enska deildarmeistaratitilinn innan fimm ára. Til þess að það geti orðið þarf liðið í fyrsta lagi að halda sæti sínu í ensku úrvalsdeildinni, og í öðru lagi að betrumbæta lið sitt umtalsvert.
Félagið þarf á nýjum leikmönnum að halda í janúarglugganum, en Eddie Howe segir að liðið og stuðningsmenn þess þurfi að vera raunsæir. Ótal leikmenn hafa verið orðaðir við félagið, en líklegast þykir að Newcastle fjárfesti í tveimur varnarmönnum og einum miðjumanni,
„Við getum ekki bara farið og keypt alla,“ sagði Howe. „Ef við kaupum alla sem við höfum verið orðaði við þá værum við með lið með 1.000 leikmönnum.“
„Það verður að vera eitthvað raunsæi í þessu. Leikmennirnir okkar þurfa líka að hugsa um sína eigin framtíð og bæta sína eigin frammistöðu.“