„Nú er nóg komið. Spilið leikina og sinnið ykkar vinnu. Þið fáið allt of mikið borgað,“ sagði Simon Jordan sem lét vaða á súðum í hlaðvarpsþætti Talksport eftir ummæli nokkurra af aðalsöguhetjum enska boltans í aðdraganda jóla.
Jordan Henderson, fyrirliði Liverpool, hafði til að mynda sagt að enginn virtist hugsa um heilsu leikmanna.
Guardiola mun samkvæmt Daily Mail hafa stungið upp á því á félagafundi að leikmenn færu í verkfall til að mótmæla leikjaálaginu um jól, og Klopp hefur síðustu sex ár bent á að ekki sé hugsað um heilsu leikmanna með leikjaflóðinu um jól. Mun fleiri hafa gagnrýnt fyrirkomulagið.
Simon Jordan er harður á því að stjörnur ensku úrvalsdeildarinnar ættu ekki að veigra sér við því að mæta til vinnu um jólin og frekar að vera þakklátar fyrir hlutskipti sitt.
„Ég veit ekki hvers konar fólk við erum að ala upp en það er í léttivigt. Ég þoli þetta ekki lengur. Sýnið smá karakter. Harkið af ykkur. Menn eru til í alla kostina sem þessu fylgja, sættið ykkur við gallana,“ sagði Jordan.
Btw nothing wrong with #MCDONALDS . I was referring to the money rather than the job value https://t.co/I5fQvfvmRx
— Simon Jordan (@Sjopinion10) December 23, 2021
„Fótbolti byggir á einhverri menningu þar sem fólk er alltaf að búa til afsakanir. Ég er þó sammála því, og það er þeim að kenna að hafa ekki kosið með því, er að leyfa fimm skiptingar. En ef þeir fá fimm, þá munu þeir vilja sjö. Og ef þeir fá sjö skiptingar þá vilja þeir tíu,“ sagði Jordan.
„Það er sama hvað maður gefur fólki, það er aldrei nóg. Hvað með að spá í hvað maður hefur það gott? Hvað með að klípa sig til að skilja hversu ótrúlega heppinn maður er? Því ef að ekki væri fyrir fótboltann væri helmingur ykkar að vinna á McDonalds,“ sagði Jordan.