Fótbolti

Brynjar Ingi til Vålerenga

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Brynjar Ingi við undirskriftina í dag.
Brynjar Ingi við undirskriftina í dag. Vålerenga

Brynjar Ingi Bjarnason hefur gengið til liðs við norska knattspyrnufélagið Vålerenga. Samningur hans gildir til ársins 2025.

Miðvörðurinn Brynjar Ingi hefur verið orðaður við fjölda liða á Norðurlöndunum undanfarna daga en nú er ljóst að hann mun spila með Vålerenga næstu fjögur árin. Frá þessu greindi félagið á samfélagsmiðlum sínum nú í dag.

Brynjar Ingi kemur til Vålerenga frá Lecce á Ítalíu en hann gekk til liðs við félagið frá KA síðasta sumar. Akureyringurinn fékk hins vegar ekki mörg tækifæri í Serie B, næstefstu deild Ítalíu, og hefur nú ákveðið að færa sig um set.

Hann verður annars Íslendingurinn í herbúðum félagsins en framherjinn Viðar Örn Kjartansson leikur með félaginu.

„Það er gott að biðin er á enda. Nú verður það bara Vålerenga hjá mér. Þetta er skref fram á við á ferli mínum. Margir Íslendingar hafa spilað og eru að spila í Noregi.“

„Ég talaði mikið við Viðar Örn áður en ég skrifaði undir. Hann hefur talað mjög fallega um félagið og sérstaklega stuðningsfólk þess. Ég er mjög spenntur fyrir komandi tímabili,“ sagði Brynjar Ingi í viðtali við vef Vålerenga við undirskriftina.

Vålerenga endaði í 7. sæti af 16 liðum á nýafstaðinni leiktíð í Noregi.

Hinn 22 ára gamli Brynjar Ingi hefur vakið mikla athygli fyrir frammistöðu sína með íslenska landsliðinu á árinu. Hann hefur spilað 10 A-landsleiki og skorað tvö mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×