United og Burnley mætast annað kvöld í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta. Á heimasíðu United er staðfest að Svíinn Victor Lindelöf missi af þeim leik, rétt eins og 1-1 jafnteflinu við Newcastle á mánudagskvöld, vegna kórónuveirusmits.
United spilaði ekki leik í rúmar tvær vikur vegna hópsmits hjá félaginu en Lindelöf er eini leikmaðurinn sem ljóst er að missir af leiknum á morgun vegna smits.
Bruno Fernandes fékk gult spjald í leiknum við Newcastle og verður í banni á morgun. Þá er Paul Pogba enn að komast í gang eftir meiðsli sín í læri og verður ekki með.
Góðu fréttirnar fyrir United eru þær að Raphael Varane var með gegn Newcastle og er því klár í slaginn á ný eftir meiðsli, líkt og Edinson Cavani sem kom inn á í leiknum og skoraði.
Jóhann og félagar ættu að vera úthvíldir því þeir hafa ekki spilað leik síðan 12. desember, þar sem leikjum þeirra við Aston Villa og Everton var frestað.