Leeds United vann kærkominn sigur eftir erfiða jólatörn þegar liðið fékk Burnley í heimsókn á Elland Road í dag. Jack Harrison kom Leeds á bragðið en Maxwel Cornet jafnaði metin fyrir Burnley með laglegu marki beint úr aukaspyrnu.
Stuart Dallas og Daniel James skoruðu í síðari hálfleik og tryggðu Leeds mikilvægan sigur en Burnley er í miklum vandræðum enda hefur liðið unnið aðeins einn leik á tímabilinu.
Jóhann Berg Guðmundsson lék fyrri hálfleik fyrir Burnley.
Everton heldur áfram að færast nær neðstu liðum en liðið tapaði illa fyrir Brighton á heimavelli í dag þar sem Alexis Mac Allister gerði tvö mörk fyrir Brighton og Dan Burn eitt í 2-3 sigri. Anthony Gordon gerði bæði mörkin fyrir Everton.
Þá vann Brentford öflugan 2-1 heimasigur á Aston Villa eftir að hafa lent undir snemma leiks. Danny Ings kom Aston Villa í forystu á sjöttu mínútu en Yoan Wissa og Mads Roerslev sáu um að tryggja nýliðunum mikilvægan sigur.