Innlent

Vara við veðrinu og biðja fólk að huga að lausamunum

Samúel Karl Ólason skrifar
Varað er við slæmu veðri sem gengur nú yfir landið og nær hámarki í kvöld og í nótt.
Varað er við slæmu veðri sem gengur nú yfir landið og nær hámarki í kvöld og í nótt. Vísir/Vilhelm

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu biðlar til fólks að sýna aðgát og ganga frá lausum munum til að forðast tjón. Varað er við slæmu veðri sem gengur nú yfir landið og nær hámarki í kvöld og í nótt.

Einnig er þeim tilmælum beint til byggingarverktaka að ganga vel frá á byggingar- og framkvæmdasvæðum sem þeir bera ábyrgð á.

Landhelgisgæslan hefur varað við því að nú sé stórstreymt og sú óvenju djúpa lægð sem nálgist landið valdi mjög hvössum suðlægum vindi og mikilli ölduhæð. Gera megi ráð fyrir miklum áhlaðanda og hárrar sjávarstöðu.

Því hvetur Landhelgisgæslan til aðgæslu í höfnum og með ströndinni þar sem sjór getur gegnið á land. Það á sérstaklega við sunnan- og vestanlands.

Gular veðurviðvaranir eru í gildi og eru ferðalangar beðnir um að kynna sér þær, ásamt færð á vegum, áður en lagt er af stað.

Varðandi færð á landinu segir Vegagerðin að vetrarfærð sé um mest allt land og er útlit fyrir að ástandið versni á sunnanverðu landinu þegar líður á daginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×