Veður

Gular viðvaranir víðast orðnar appelsínugular

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Appelsínugular veðurviðvaranir eru í gildi víða á landinu í kvöld og í nótt.
Appelsínugular veðurviðvaranir eru í gildi víða á landinu í kvöld og í nótt. Veðurstofa Ísland

Appelsínugular veðurviðvaranir eru í gildi á nær öllu Vesturlandi. Þær taka gildi í kvöld og gilda fram til klukkan sex í fyrramálið. 

Veðurstofan sendi frá sér gula viðvörun fyrir stóran hluta landsins í morgun. Þeim veðurviðvörunum hefur verið breytt í appelsínugular fyrir stærstan hluta þess svæðis. 

Á suðurlandi er gulviðvörun frá klukkan 21 í kvöld til klukkan 23 og er varað við suðaustan stormi eða roki og búast má við mjög snörpum vindhviðum við fjöll, einkum við Eyjafjallajökul og Mýrdalsjökul. Klukkan 23 breytist þessi viðvörun í appelsínugula viðvörun og er þá varað við því að víðtækar samgöngutruflanir séu líklegar. Viðvörunin gildir til klukkan fjögur í nótt. 

Á höfuðborgarsvæðinu er gul viðvörun í gildi frá klukkan 22 í kvöld til klukkan sex í fyrramálið. Varað er við suðaustan hvassviðri eða stormi og búast má við snörpum vindhviðum við Kjalarnes. Þá er nokkur úrkoma á svæðinu. 

Við Faxaflóa tekur gul viðvörun gildi klukkan 21 og gildir hún til 23. Afmarkaðar samgöngutruflanir eru sagðar líklegar og er fólk hvatt til að sýna aðgát. Klukkan 23 í kvöld hvessir enn fremur og má búast við sérlega snörpum vindhviðum við fjöll. Þá má búast við víðtækum samgöngutruflunum á vegum og er ekkert ferðaveður á meðan viðvörunin er í gildi til klukkan fimm í fyrramálið. 

Við Breiðafjörð er sömuleiðis appelsínugul viðvörun í gildi frá miðnætti til klukkan sex í fyrramálið. Búast má við mjög snörpum og varhugaverðum vindhviðujm við fjöll einkum á norðanverðu Snæfellsnesi,  í Dölum og á Barðaströnd. Þar er einnig varað við víðtækum samgöngutruflunum. 

Á miðhálendinu verður suðaustan rok og gul veðurviðvörun í gildi frá klukkan 21 í kvöld til klukkan átta í fyrramálið. Þar má einnig búast við mjög snörpum og varhugaverðum vindhviðum við fjöll. Aðstæður eru sagðar mjög varhugaverðar og hættulegar fyrir ferðamenn. æ




Fleiri fréttir

Sjá meira


×