Fótbolti

Þurftu að mæta í útileik þrátt fyrir að heimaliðið væri í sóttkví

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Leikmenn Inter tóku létta æfingu í stað þess að spila.
Leikmenn Inter tóku létta æfingu í stað þess að spila. Mario Carlini / Iguana Press/Getty Images

Fresta þurfti leik Bologna og Inter sem átti að fara fram í ítölsku úrvalsdeildinni í kvöld vegna fjölda kórónuveirusmita í herbúðum Bologna. Þrátt fyrir það þurftu leikmenn Inter að mæta og hita upp á meðan að dómarar skoðuðu völlinn.

Heimamenn í Bologna voru settir í sjö til tíu daga sóttkví í gær af sóttvarnaryfirvöldum vegna fjölda kórónuveirusmita og því var löngu vitað að leikmenn liðsins myndu alls ekkert mæta til leiks.

Forráðamenn ítölsku úrvalsdeildarinnar hafa hins vegar neitað að fresta leikjum og því þurftu leikmenn Inter að mæta á svæðið og hita upp líkt og um alvöru leik væri að ræða.

Dómararnir sem áttu að dæma leikinn tóku þátt í leikþættinum og voru mættir til að skoða netin í mörkunum og ganga úr skugga um að marklínutæknin virkaði sem skildi.

Eins og reglur ítölsku úrvalsdeildarinnar kveða á um var Inter dæmdur 3-0 sigur. Ekki nóg með það heldur er eitt stig einnig dregið af Bologna fyrir að mæta ekki til leiks.

Þó eru fordæmi fyrir því að lið geti áfrýjað niðurstöðunni, en á seinasta tímabili var Juventus dæmdur 3-0 sigur gegn Napoli, en þeir síðarnefndu áfrýjuðu ákvörðuninni, fengu stigið sitt til baka, og leiknum var fundin ný tímasetning.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×