Talsmaður kasakska innanríkisráðuneytisins segir að 26 „vopnaðir glæpamenn“ og átján lögreglumenn hafi látist í átökum þeirra í millum. Mótmæli höfðu staðið víða um land síðustu daga vegna hækkandi eldsneytisverðs.
Greint var frá því í gær að ríkisstjórnin hefði farið frá og að forsetinn hefði lýst yfir neyðarástandi víða um land vegna mótmælanna. Þá var víða slökkt á netsambandi til að torvelda allar aðgerðir mótmælenda.
This is what it is like in #Almaty tonight #Kazakhstan pic.twitter.com/L5KfehIrQf
— Abdujalil A (@abdujalil) January 6, 2022
Sameinuðu þjóðirnar og stjórnvöld í Bretlandi, Bandaríkjunum og Frakklandi hafa hvatt bæði kasöksk yfirvöld og mótmælendur að forðast það að beita ofbeldi.
BBC segir frá því að rúmlega þrjú þúsund manns hafi verið handteknir í aðgerðum lögreglu, en búið er að koma upp sjötíu eftirlitsstöðvum lögreglu á vegum víða um land.
Tokayev leitaði til öryggisbandalagsins CSTO um aðstoð eftir að mótmælin mögnuðust, en auk Kasaka eiga Rússar, Hvít-Rússar, Tadsíkar og Armenar aðild að bandalaginu.
Segir að Rússar hafi sent 2.500 hermenn til að aðstoða kasöksk yfirvöld í baráttunni við mótmælendur og er búist við að þeir verði í Kasakstan í einhverja daga eða jafnvel vikur.