Byssumenn réðust inn í hverfi í norðvesturhluta Zamfara ríkis í Nígeríu og skutu á hvern sem á vegi þeirra varð. Vígamennirnir kveiktu í húsum borgara og limlestu lík látinna í árásunum.
Fjölmiðlar þar í landi telja að um hefndaraðgerðir sé að ræða eftir loftárás nígeríska hersins sem hröktu vígamenn úr frumskógum Zamfara-ríkis á brott. Muhammadu Buhari, forseti Nígeríu, segir að glæpamönnunum verði engin grið gefin.
„Stjórnvöld í Nígeríu munu leggja sig öll fram við að ná tökum á ástandinu. Árásirnar á óbreytta borgara eru örþrifaráð glæpagengja sem eru orðin örvæntingafull eftir loftárásir hersins,“ segir forsetinn.
Rúmlega hundrað vígamenn voru drepnir í loftárásum nígeríska hersins í vikunni og yfir fimm hundruð hafa fallið í árásum hersins síðan í fyrra. Breska ríkisútvarpið greinir frá.