Litháar hættu við að koma til Íslands og spila hér leiki á Ásvöllum síðastliðinn föstudag og í gær. Var það sagt vegna stöðu kórónuveirufaraldursins í Evrópu, í tilkynningu frá HSÍ síðastliðinn miðvikudag.
Nú er svo komið í ljós að einn leikmaður í litháenska hópnum, Mykolas Lapiniauskas, greindist með kórónuveirusmit á föstudaginn. Ekki hafa greinst fleiri smit í hópnum.
Samkvæmt nýsamþykktum reglum EHF þurfa fimm dagar að líða frá því að smit greinist og þar til að leikmaður má spila á EM, að því gefnu að hann skili tveimur neikvæðum prófum.
Fyrsti leikur Litháen á EM er gegn Rússlandi á fimmtudaginn, í Kosice í Slóvakíu, og því mögulegt að Lapiniauskas geti spilað þann leik.
Eftir að hafa sleppt Íslandsför ákváðu Litháar að þiggja boð um að spila æfingaleik í Lettlandi, sem hafður var 80 mínútna langur, og unnu þar eins marks sigur, 37-36.
Íslenski hópurinn hefur forðast smit frá því að hann kom fyrst saman fyrir viku. Þá átti reyndar einn í hópnum eftir að ljúka einangrun og tveir sóttkví, sem þeir luku um miðja vikuna.