Kvennalið Barcelona fær mjög sjaldan að spila heimaleiki sína á Nývangi þar sem karlarnir spila alla sína heimaleiki. Forráðamenn félagsins fundu aftur á móti að það væri mikill áhugi á heimaleik liðsins á móti Real Madrid í Meistaradeildinni og færðu hann yfir á Nývang.
Stelpurnar spila vanalega á Johan Cruyff leikvanginum sem er sex þúsund manna völlur. Það kom fljótt í ljós að þetta var frábær ákvörðun.
Það er óhætt að segja að sala miða hafi gengið vel. 35 þúsund miðar seldust á fyrsta sólarhringnum þegar félagsmenn höfðu forkaupsrétt og sú tala fór upp í fimmtíu þúsund á fyrsta klukkutímanum eftir að opnað var fyrir almenna sölu.
Leikurinn fer ekki fram fyrr en 30. mars næstkomandi og það er því nægur tími til að selja miklu fleiri miða. Ódýrustu miðarnir kosta níu evrur eða rúmlega þrettán hundruð íslenskar krónur. Nývangur tekur rúmlega 99 þúsund áhorfendur og það er því nóg af miðum eftir enn.
Þetta er aðeins í annað skiptið frá því að kvennalið Barcelona var atvinnumannalið sem það fær að spila á Nývangi. Ólíkt í fyrra skipti, deildarleik á móti Espanyol, þá verða áhorfendur á þessum leik. Leikurinn á móti Espanyol var spilaður fyrir luktum dyrum vegna Covid-19.
Barcelona vann Meistaradeildina á síðustu leiktíð og vann alla sex leiki sína í riðlakeppninni í vetur með markatölunni 24-1. Real Madrid vann fjóra af sex leikjum sínum en átta af tólf mörkum liðsins komu í tveimur leikjum á móti Breiðabliki.