Þetta er fjórði leikurinn sem fresta þarf hjá Jóhanni Berg Guðmundssyni og félögum í Burnley á þessari leiktíð.
Áður hafði þremur leikjum verið frestað hjá liðinu í desember vegna smita hjá andstæðingum Burnley en þetta er fyrsti leikurinn sem fresta þarf vegna smita hjá Burnley-mönnum.
Þá var leik Burnley við Tottenham fyrr á þessari leiktíð frestað vegna snjókomu.
Í yfirlýsingu frá ensku úrvalsdeildinni segir að beiðni Burnley um að fresta leiknum við Leicester hafi verið samþykkt þar sem að ekki hafi verið nægilega mikill fjöldi leikmanna til taks (13 útileikmenn og einn markvörður) vegna kórónuveirumála og meiðsla.
Burnley átti að spila frestaðan leik við Watford næsta þriðjudag en nú er alls kostar óvíst að af því verði.
Burnley var án sjö leikmanna vegna kórónuveirusmita í 2-1 tapinu gegn Huddersfield í enska bikarnum um helgina, auk þess sem stjórinn Sean Dyche var smitaður. Síðan þá hefur félagið svo selt framherjann Chris Wood til Newcastle.
Burnley er sem stendur í fallsæti með 11 stig eftir 17 leiki, með aðeins einn sigur en átta jafntefli, og er tveimur stigum frá næsta örugga sæti.