Innlent

Læknar með gjör­ó­líka sýn á far­aldurinn takast á í Pall­­borðinu

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Ragnar Freyr og Tómas þekkjast vel en eru óhræddir við að segja sína skoðun á málunum.
Ragnar Freyr og Tómas þekkjast vel en eru óhræddir við að segja sína skoðun á málunum. vísir

Gamlir vinir og sam­starfs­menn á Land­spítala mætast í Pall­borðinu klukkan 14:30 í beinni hér á Vísi og Stöð 2 Vísi í dag til að ræða heims­far­aldurinn og leiðir út úr honum. Fylgst er með gangi mála í textalýsingu í vaktinni hér að neðan.

Þeir Ragnar Freyr Ingvars­son, læknir hjá Land­spítala og fyrr­verandi yfir­læknir Co­vid-göngu­deildarinnar, og Tómas Guð­bjarts­son, skurð­læknir á spítalanum, hafa undan­farið tjáð sig mikið um far­aldurinn og stöðu spítalans. Þeir hafa þó gjör­ó­líka sýn á málin.

Ragnar Freyr hefur ný­lega komist í fréttir fyrir að koma fram með þá hug­mynd að hætta því sýna­töku­fyrir­komu­lagi sem nú er viðhaft þegar svo margir greinast smitaðir dag­lega. Í gær greindust til dæmis næst­flestir með Co­vid-19 frá upp­hafi far­aldursins.

Óttar Kolbeinsson Proppé, fréttamaður Stöðvar 2, stýrir umræðunum á eftir, sem hefjast klukkan 14:30. Hægt verður að horfa á þær í beinni hér í spilaranum að neðan.

Sótt­varna­læknir og Már Kristjáns­son, yfir­læknir smit­sjúk­dóma­deildar Land­spítala, hafa verið honum ó­sam­mála í því og einnig góður vinur og sam­starfs­maður Ragnas Freys, Tómas Guð­bjarts­son.

Hann er hinum megin línunnar, vill halda hörðum sam­komu­tak­mörkunum á meðan á­standið á spítalanum er eins og það er í dag og komst í fréttir um helgina fyrir að skjóta föstum skotum að utan­ríkis­ráð­herra fyrir orð­ræðu hennar í far­aldrinum.

Það hefur dregið til mikilla tíðinda í far­aldrinum síðustu daga; margt bendir til að ó­míkron-af­brigðið valdi marg­falt vægari veikindum en delta-af­brigðið og þá hefur sótt­varna­læknir rokkað fram og til baka þegar hann ræðir um sótt­varna­tak­markanir. Ó­breyttar tuttugu manna sam­komu­tak­markanir tóku gildi í byrjun síðustu viku en þremur dögum síðar var á­kveðið að herða niður í 10 manns og í gær viðraði sótt­varna­læknir svo þær hug­myndir að slaka aftur á tak­mörkunum.

Margir eru búnir að missa þráðinn í um­ræðunum. Hvert er mark­miðið í dag? Og er rétt­lætan­legt að hafa svo gríðar­lega strangar sam­komu­tak­markanir í gildi þegar nýtt af­brigði er minna skað­legt en upp­runa­lega var búist við? Þetta verður allt tekið fyrir í fjörugum um­ræðum í Pall­borðinu í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira
×