Møller kom inn á eftir átján mínútna leik fyrir Niklas Landin sem fann sig ekki. Það gerði Møller hins vegar og varði sautján skot, eða 59 prósent þeirra skota sem hann fékk á sig.
Íslenska liðið var vængbrotið gegn heimsmeisturunum en sex lykilmenn greindust með kórónuveiruna í aðdraganda leiksins. Það flækti undirbúning dönsku markvarðana fyrir leikinn enda mættu þeir leikmönnum sem þeir bjuggust ekki við að mæta.
„Við þurftum að fara í safnið og grafa upp myndbönd af leikjum þeirra með félagsliðum og treysta því. Við höfðum ekki mikið efni frá hverjum og einum,“ sagði Møller eftir leikinn.
„Stundum er líka gott að treysta aðeins á innsæið og þú verður að gera það þegar þú ert markvörður, sérstaklega þegar þú kemur inn af bekknum.“
Danir unnu leikina sína þrjá í riðlakeppninni á EM með samtals þrjátíu marka mun en þurftu að hafa talsvert meira fyrir hlutunum gegn Íslendingum í gær. Íslenska liðið hélt í við það danska lengi vel en á síðustu tíu mínútunum skildu leiðir.
Næsti leikur Danmerkur á EM er gegn Króatíu annað kvöld.